All posts by ari

Guðmundur Ari vill nýja nálgun á formannshlutverk Samfylkingarinnar

20140512-_MG_912627 ÁRA TÓMSTUNDA- OG FÉLAGSMÁLAFRÆÐINGUR BÝÐUR SIG FRAM TIL FORMANNS SAMFYLKINGARINNAR. HANN VILL HJÁLPA SAMFYLKINGUNNI AÐ FINNA GLEÐINA Á NÝ

Guðmundur Ari 27 ára bæjarfulltrúi af Seltjarnarnesi býður fram krafta sína til að sinna hlutverki formanns Samfylkingarinnar. Guðmundur Ari vill skerpa á fókus Samfylkingarinnar þar sem áherslan verður á að tala fyrir jafnaðarstefnunni í stað þess að setja allt púður í að gagnrýna aðra flokka. Guðmundur Ari telur að stærsti vandi Samfylkingarinnar snúi ekki að stefnu flokksins eða hvaða málefni eiga að ráðast í til að bæta hag almennings. Vandamál Samfylkingarinnar snúist um skort á tengingu forystunnar við hinn almenna flokksmann og þar af leiðandi kjósendur í landinu.

Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, sé ekki stærsti flokkurinn hér á landi þar sem mikill meirihluti landsmanna eru jafnaðarmenn og vilja búa í samfélagi þar sem allir hafa jafna möguleika til að ná árangri óháð efnahag og félagslegri stöðu

Samkvæmt Guðmundi Ara þarf formaður Samfylkingarinnar ekki aðeins að vera talsmaður stefnu flokksins heldur einnig að vinna eftir henni. Formaðurinn þarf að muna að það eru allir flottir og að sterku samfélagi er ekki stýrt af fámennum valdaklíkum heldur með öflugri grasrót og aðkomu sem flestra að ákvarðanatöku. Samfylkingin þarf ekki formann sem telur sig vita allt best og að hann sé með allar lausnir á vandamálum samfélagsins sjálfur. Hlutverk formanns er að virkja sem flesta félagsmenn til þátttöku og finna svo bestu leiðirnar til að koma málefnum þeirra í framkvæmd hvort sem það er inni á Alþingi eða í sveitarstjórnarmálum.

Það vill oft gleymast að Samfylkingin er stærri en þingflokkur Samfylkingarinnar og að í sveitarstjórnum landsins berjast fulltrúar flokksins á hverjum degi fyrir baráttumálum jafnaðarmanna. Sem formaður mundi ég vinna hörðum höndum á að bæta samstarf sveitarstjórnamanna og þingflokksins.

Þetta þarf að vera gaman

Guðmundur Ari telur það vera frumskyldu formanns og forystu Samfylkingarinnar að virkja kraft félagsmanna og að tryggja að þeir eigi sem stærstan þátt í stefnunni og þeim málum sem barist er fyrir. Það er hinn almenni félagsmaður í stjórnmálaflokkum líkt og öðrum frjálsum félagasamtökum sem vinnur sjálfboðavinnu af hugsjón til að gera samfélagið betra. Í þessu býr kraftur fjöldahreyfinga. Það er hlutverk forystu Samfylkingarinnar að fá sem flesta að borðinu og tryggja það að hugmyndir félagsmanna séu þær sem ná alla leið inn í stjórnkerfið en ekki persónuleg mál þingmanna hverju sinni. Eitt stærsta vandamál stjórnmálanna í dag er að fólki finnst stjórnmál leiðinleg og að hinn almenni kjósandi hafi engin áhrif því það séu sérhagsmunir og valdaklíkur sem ráða öllu. Þetta er jarðvegur þar sem popúlismi þrífst og hugsjónir þynnast út því kjósandinn er ekki virkur þátttakandi í stjórnmálum heldur fær bara kosningabæklinginn sendan á fjögurra ára fresti.

Til að snúa þessari þróun við þá þarf flokksstarfið að vera gefandi og skemmtilegt. Það þýðir ekki að það þurfi að vera candy floss vél á öllum fundum heldur að hinn almenni félagsmaður finni fyrir því að hlustað sé á hann og að hann hafi áhrif á framtíðaruppbyggingu samfélagsins sem hann býr í.

Reynsla og menntun af stjórnun félagasamtaka

Guðmundur Ari er giftur Nönnu Árnadóttur íþróttafræðingi og saman eiga þau strákana Árna Berg og Kjartan Kára. Guðmundur Ari er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað við æskulýðsmál síðastliðin 7 ár. Á þeim tíma hefur hann auk starfa sinna í félagsmiðstöð setið í stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu í þrjú ár og síðustu tvö sem formaður og hefur starfað sem aðstoðar- og stundakennari á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Guðmundur Ari skrifaði á síðasti ári bókina 9 Þrep æskulýðsstarfs sem er handbók fyrir æskulýðsstarfsfólk. Ásamt þessum verkefnum hefur Guðmundur Ari setið fyrir hönd Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Seltjarnarness síðastliðin tvö ár.

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.

Starfskenning æskulýðsstarfsmanns

GAS

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð haustið 2008. Mamma benti mér á að Selið úti á Seltjarnarnesi, þar sem ég ólst upp væri að leita að starfsfólki. Ég var aldrei duglegur að sækja félagsmiðstöðina þegar ég var í grunnskóla og hafði í raun lítið tekið þátt í skipulögðu félagsstarfi. Ég mætti í viðtal hjá Möggu, forstöðumanns  í Selinu sem spurði mig út í mín áhugamál og leitaðist þannig við að máta mig inn í starfsmannahópinn. Ég fékk símtal skömmu síðar frá Möggu þar sem hún tilkynnti mér að hún væri búin að ráða í allar stöður en vildi hafa mig í afleysingum.  Þegar veturinn var alveg að fara af stað fór einn kvöldstarfsmaðurinn að vinna aðra vinnu og þá fékk ég kallið.

Þegar ég hóf störf í félagsmiðstöð hafði ég engin markmið, engar aðferðir og enginn verkfæri í höndunum. Eina sem maður hafði var að reyna vera skemmtilegur og að tengjast krökkunum. Ég lærði þó mjög fljótt að maður getur ekki rekið félagsmiðstöð á persónutöfrunum einum saman og þökk sé frábærs samstarfsfólks lærði ég fljótt að starfið laut vissum reglum. Eftir tvö ár í kvöldstarfi sótti ég um á tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands. Nú þegar útskrift nálgast er mikilvægt að skerpa á starfskenningu minni sem æskulýðsleiðbeinandi.

Í grunninn er gott að hugsa vinnu sína í félagsmiðstöð út frá þörfum einstaklinganna sem hana sækja. Samkvæmt þroskasálfræði kenningum Erik Eriksons (Berger, 2005) skiptist ævin upp í átakaskeið þar sem tveir pólar takast á og skapa þessi átök togstreitu í einstaklingum sem mikilvægt er að ná sátt við áður en haldið er á næsta æviskeið. Æviskeið unglingsáranna snýst um sjálfsmyndarleit einstaklingsins, „hver er ég?”, pólítískar skoðanir, kynferði og hvað vil ég gera við líf mitt? (Berger, 2005).  Félagsmiðstöð er í lykilstöðu til að aðstoða einstaklinginn á þessu átakaskeiði því í félagsmiðstöðinni er unglingurinn á eigin forsendum og getur valið sér verkefni eftir áhugasviði. Unglingurinn getur búið til stuttmynd einn daginn, verið í ræðuliði annan dagin og setið fundi með bæjaryfirvöldum þann þriðja. Æskulýðsstarfsfólk er mikilvægar fyrirmyndir unglinganna og hafa mikil áhrif á þá. Starfsmenn móta félagsmiðstöðvastarfið og skapa þá stemningu og menningu sem ríkir í félagsmiðstöðinni. Eins og kemur fram í starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR  (e.d. bls 2) þá er „eitt mikilvægasta verkefni starfsmanna að sjá til þess að öllum unglingum finnist þeir velkomnir í félagsmiðstöðina og að enginn verði þar fyrir aðkasti eða einelti”.

En það sem ekki má gleyma er að félagsmiðstöðin er einungis hús og unglingarnir skapa starfið með virki þátttöku sinni. Virk þátttaka er þvi lykilþáttur í félagsmiðstöðvastarfi og þá er ekki verið að tala um að unglingar mæti á viðburði eða klúbbastarf skipulagt  af starfsfólki. Með virkri þátttöku er átt við að þátttakendur eru upplýstir um verkefnið sem þeir taka þátt í, þeir fá að segja sína skoðun á verkefninu og hafa ákvörðunarrétt þegar ákvarðanir eru teknar sem snúa að verkefninu (Hart, 2002). Eitt furðulegasta en þó eitt besta heilræðið sem ég hef fengið í starf mínu sem æskulýðsstarfsmaður er að ég sé að standa mig best þegar ég þarf ekki að gera neitt. Þessu ber ekki að rugla saman við hangs og leti. Þetta snýr að því að starfið gengur best ef starfsfólkið útbýr svo góðan ramma og temur sér vinnubrögð sem snúa að því að unglingarnir geta komið með hugmyndir að verkefnum, þeir geta fundað og tekið ákvarðanir sem snúa að verkefnum og að þeir hafi öðlast þá hæfni til að framkvæma verkefnin sjálf. Hér er starfsmaður að sjálfsögðu með yfirsýn og til staðar en verkefnið er ekki hans heldur unglinganna.

Þegar ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð var ég alltof gjarn til að ganga í verkefni, skipuleggja viðburði og framkvæma þá sjálfur enda alinn upp við það að vera duglegur og vinna vel. Maður er allt of vanur því að framleiðni starfsmanns sé reiknuð í því hversu mörg handtök hann vinnur og hversu hratt og örugglega gengur að skipuleggja verkefni. Æskulýðsstarfsmaður má ekki hugsa á þennan veg, hann á að temja sér hugsunarhátt sem er meira í líkingu við hugsunarhátt kennara. Það mundi enginn segja að góður kennari væri sá sem mundi reikna öll stærðfræði dæmin fyrir börnin. Góður kennari líkt og góður æskulýðsstarfsmaður býr til ramma handa unglingunum og afhendir þeim verkfærin sem þau þurfa til að reikna dæmið til enda.

Í félagsmiðstöðvum á sér stað gífurlegt nám og mikilvægt að starfsfólk sé ávallt að leita að námstækifærum í stað þess að fjarlægja þau. Þetta nám er ekki formlegt nám eins og við þekkjum úr skólakerfinu heldur óformlegt og formlaust reynslunám. Óformlegt nám er oft í formi námskeiða þar sem ekki er veitt nein sérstök gráða fyrir námið (Jeffs, Smith, 2005). Sem dæmi má nefna kvikmyndaklúbb þar sem starfsmaður eða unglingur kennir á myndavélar og myndvinnsluforrit í formi fræðslu og með því að leyfa unglingunum að prófa sig áfram undir leiðsögn. Formlaust nám er svo aftur á móti allt sem við lærum af umhverfinu og samskiptum okkar við annað fólk (Jeffs, Smith, 2005). Við tileinkum okkur menningu sem við erum hluti af. Við öpum upp samskiptamunstur frá fyrirmyndum okkar, mótum jafnvel tónlistar og fatasmekk út frá þeim hóp sem við umgöngumst. Við lærum einnig slæm samskipti og áhættuhegðun með óformlegu og formlausu reynslunámi og því mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn sé ávallt vakandi um þau námstækifæri sem umhverfið býður upp á og geri sitt besta til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn geri ekki upp á milli fólks og afskrifi engan. Æskulýðsstarfsmaðurinn á að tileinka sér „allir flottir” kenninguna (e. postive youth development). En samkvæmt henni býr sérhvert barn yfir hæfileikum, styrkleikum og áhugasviðum sem skapa  möguleika á farsælli framtíð fyrir barnið (Damon, 2004). Allir flottir kenningin snýr að því að einblýna á styrkleika barnsins og byggja undir þá í stað þess að setja alla orkuna í vandamál eins og lesblindu, ofvirkni, reykingar eða andfélagslega hegðun (Damon, 2004). Það er því hlutverk starfsmannsins að hjálpa unglingum að finna styrkleika sína og búa til farveg svo að unglingarnir geti nýtt sér styrkleika sína til að yfirbuga „veikleikana”.

Það er því að ýmsu að huga í starfi æskulýðsstarfsmannsins og eflaust eitthvað af hlutum sem ekki eru nefndir í þessari upptalningu minni hér. Þetta eru þó þeir hlutir sem standa upp úr að mínu mati og mynda starfkenningu mína. Starfskenning mín hefur mótast af 5 ára starfsreynslu í félagsmiðstöð, þriggja ára háskólanámi en einnig af minni eigin reynslu af skólakerfinu og starfi félagsmiðstöðva. Þegar ég var í grunnskóla passaði ég alls ekki inn í fastmótaða kassa skólakerfisins, samræmd próf og kyrrsetu á meðan fullorðið fólk talaði um hluti sem ég tengdi mig engan vegin við og áttu alls ekki við mig. Þessi skoðun mín á skólakerfinu viðhélst upp í menntaskóla þar sem ég fann mér engan farveg. Þegar ég byrjaði að vinna í Selinu hafði ég engan áhuga á því að fara í háskóla og var ég farinn að hugleiða það alvarlega að hætta í menntaskóla. Í Selinu kynntist ég styrkleikum mínum sem kynduðu undir áhuga á því að leita að frekari þekkingu. Það varð til þess að ég skráði mig í tómstundafræði og í því námi hef ég ekki átt í neinum erfileikum með að sitja og hlusta, leysa verkefni og skapa nýja hluti. Á þessum stutta tíma hafa viðhorf mín til skóla og lífsins gjörbreyst. Þessi reynsla mín af mikilvægi þess að einstaklingar finni styrkleika sína í stað þess að rembast eins og rjúpan við staurinn við að gera það sama og hinir er minn helsti hvati fyrir fjölbreyttu og uppbyggilegu tómstundastarfi þar sem einstaklingar fá að blómstra á eigin forsendum.

 

Heimildaskrá

Berger, K. S. (2005). The developing person through the life span. (6. útgáfa). New York: Worth Publishers.

Damon, W. (2004). What is positive youth development? The ANNALS of the American Academy of Political and Social Science, 591, 13-24.

Hart. R. A. (2002). Children‘s participation: The theory and practice of involving young citizens in community development and enviromental care. London: Earthscan Publications Ltd.

ÍTR (e.d.). Starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR. Reykjavík: Höfundur.

Jeffs, T. og Smith, M. K. (2009). Informal education: conversation, democracy and learning. (3. útgáfa). Nottingham: Educational Heretics Press.

Neyddur til skólagöngu

Grein sem birtist eftir mig í Krítinni, www.kritin.is.

Skólasamfélagið er að mörgu leiti mjög merkilegur staður. Í skólasamfélaginu ertu metinn að verðleikum en þó ekkert endilega þeim sem þú setur sjálfur á oddinn. Í skólasamfélaginu er þeim einstaklingum sem uppfylla kröfur kerfisins og kennaranna hampað á meðan aðrir eiga að taka sér þá til fyrirmyndar. Afreksnemendum eru afhent verðlaun í lok hvers skólaárs ef þeir ná hæstu einkunn í skólanum á meðan hinir nemendurnir eiga að klappa þeim lof í lófa.

Á Íslandi er 10 ára skólaskylda, í skólanum er nemendinnur sífellt metinnir og gagnrýndurir af kennurum. Margir þessara nemenda eru í skólanum af illri nauðsyn. Skólinn er því ekkert endilega sá staður sem þeir vilja eyða tíma sínum í né er sú menntun sem þar er boðið upp á sú færni sem þeir vilja öðlast.

Þegar ég var í gagnfræðiskóla þá var skólinn síðasti staðurinn í veröldinni sem mig langaði að vera á. Áhugamál mín þá voru íþróttir og tölvuleikir og við þá iðju leið mér mjög vel. Þar var ég að læra nýja hluti, rækta hæfileika mína, ég tilheyrði hópi, tileinkaði mér ákveðin gildi og hafði skýr markmið. En á hverjum degi þurfti ég að fara snemma að sofa til að vakna eldsnemma og fara á stað sem náði engan veginn til mín og á hverjum degi dundi á mér áreiti frá kennurum, skólastjórum og svo foreldrum um að ég þyrfti að standa mig betur því að ég væri ekki að uppfylla kröfur skólasamfélagsins.

Kennararnir skildu ekki afhverju ég hlýddi ekki fyrirmælum, skólastjórnendur fussuðu og sveiuðu yfir mér við mömmu mína og pabba sem skömmuðu mig svo líka þegar ég kom heim og allir þessir neikvæðu hlutir tengdust skólanum.

Þetta var minn raunveruleiki.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og kenni félagsmálafræði í sama grunnskóla og ég var í sem unglingur. Þar starfar enn stór hópur kennara sem var einnig starfandi í skólanum þegar ég var nemandi. Þau hafa reglulega orð á því hvað það rættist vel úr mér og hvað ég hef þroskast mikið.

Að mínu mati er það þó ekki þroskinn sem að breytti mér heldur markmið mín. Ég var alveg jafn útsjónasamur, hugmyndaríkur, úrræðagóður og duglegur þegar ég var 15 ára og ég er nú. Ég hafði bara engan áhuga á því að beita þeim hæfileikum í skólanum. Það var ekki fyrr en ég hafði verið á vinnumarkaðnum og fundið það starf sem mig langaði að starfa við að ég fann raunverulegan hvata til þess að skrá mig í nám. Ég skráði mig í Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands og þar er ég viss um að kennararnir hafa aðra sögu um mig að segja en grunnskólakennararnir mínir.

En þarf þetta virkilega að vera svona? Er það bara eðlilegt að sumir nemendur rúlla í gegnum kerfið og finna sig aldrei í grunnskólanum? Því trúi ég allavega ekki og tel eitt mikilvægasta hlutverk kennara vera að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og finna styrkleika þeirra. Útfrá þessum styrkleikum er hægt að finna hlutverk fyrir nemandann og kennarinn og nemandinn geta sett sér markmið sem báðir aðilar eru sáttir við. Það versta sem kennarar geta gert er að afskrifa nemendur sem erfiða nemendur og standa í stanslausu stappi við þá. Þá festist nemandinn í því hlutverki og markmið hans byrjar að snúast um það að finna höggstað á kennaranum.

Ég biðla því til allra kennara að hafa þetta bakvið eyrað næst þegar þið skiljið hreinlega ekki afhverju nemandi ykkar er svona erfiður. Leitið uppi mismunandi styrkleika nemenda ykkar í stað þess að einblína á þröngt svið styrkleika og líta á allt annað sem truflun. Allir nemendur ykkar eru manneskjur og öllum manneskjum líður best þegar þær takast á við krefjandi verkefni sem falla undir áhugasvið þeirra. Allar manneskjur koðna niður ef þær upplifa sig á röngum stað, undir stanslausu áreiti og úrræðalaus gagnvart eigin aðstæðum. Það er ykkar hlutverk að vekja áhuga nemandans út frá þörfum hans og hjálpa honum að finna gleðina í skólanum.

The Lean Startup – Beittu einfaldri en þó vísindalegri aðferð við þitt startup

814EXQRrg5L._SL1500_Gunnar Hólmsteinn CEO hjá Clöru benti mér á frábæra bók um daginn sem ber nafnið The Lean startup og er skrifuð af Eric Ries. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar þessi bók um frumkvöðlafræði og frumkvöðla hugsun en í bókinni er fjallar um Lean aðferðina við það að stofna fyrirtæki eða við þróun á nýrri vöru eða verkefni.

Höfundur bókarinnar Eric Ries er 32 ára frumkvöðull sem hefur margra ára reynslu af nýsköpunarstörfum bæði vel heppnuðum og misheppnuðum. Hann var einn af stofnendum IMVU Inc sem er sýndarveruleiki á netinu þar sem notendur geta búið sér til persónu í þrívídd og átt samtöl og spilað leiki við aðra notendur. IMVU hefur 40 milljón notendur og hefur skapað yfir 40 milljón dollara í tekjur.

Bókin er: skemmtileg blanda af reynslusögum höfundar sem og reynslusögum af öðrum frumkvöðlafyrirtækjum í bland við aðferðir og eins konar kenningar. Eric Ries dregur mikinn lærdóm af misheppnuðum frumkvöðla hugmyndum og greinir það sem fór úrskeiðis. Að mati Eric Ries er allt of mikið gert úr því að tala um vel heppnuð startup sem einhverskonar töfra eða heppni og vill hann meina að það séu viss vísindi bakvið vel heppnað startup. Bókin er kaflaskipt og kaflarnir fylgja startup ferlinu frá því að hugmynd fæðist og þangað til að hún er orðin að veruleika.

Í grunninn snýst Lean aðferðin um að lágmarka óþarfa hluti eða allt sem mundi flokkast sem “waste”. Aðferðin byggir á því að nota vísindalegar aðferðir þar sem sett er fram mælanleg tilgáta, hún prófuð og útfrá niðurstöðunum er tekin ákvörðun um framhaldið. Þetta setur Eric upp sem “The build measure learn feedback loop”.

En með þessu er áherslan lögð á raunveruleg gögn en ekki einungis hugsjónir og fyriráætlanir um jákvæða útkomu.

Gott dæmi um hvernig maður á að beita Lean aðferðinni er þegar maður hefur stórar hugsjónir og góða hugmynd af nýrri vöru eða fyrirtæki þá er mikilvægt að láta reyna á hugmyndina sem fyrst í raunveruleikanum svo ekki sé verið að fjárfesta of miklum tíma og fjármunum í hugmynd sem ennþá hefur ekki sannað notagildi sitt í raunveruleikanum. En í þessu samhengi talar Eric um MVP (minimum viable product) en það er eins konar tilraunarútgáfa af vörunni/hugmyndinni þar sem grunnvirknin er til staðar án allra óþarfa fylgihluta. Mikilvægt er svo að beita vísindalegum og mælanlegum aðferðum til að geta mælt hvað gekk vel og hvað þarf að laga. En einn af stóru hlutunum í Lean hugmyndinafræðinni er einmitt að þora að gjörbreyta hugmyndinni ef hún er ekki að fá nægilega góða svörun frá neytandanum.

Samantekt:

Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir alla sem vilja geta beitt frumkvöðla hugsun á skipulagðan og vel útfærðan hátt. Bókin er skemmtileg blanda af reynslusögum og aðferðum sem allar vinna í átt að því að gera lesandann að hæfari frumkvöðli. Höfundurinn nær að þó að taka mann niður á jörðina þar sem hann fjallar ekki bara um startup sem að meikuðu það heldur einnig um góðar hugmyndir sem ekki gengu upp og reynir hann að greina hvað betur hefði mátt fara. Höfundurinn brýtur startupið einnig niður í skref og hugmyndafræðin á bakvið MVP kveikir í manni eldmóð að láta reyna á þær hugmyndir sem maður hefur í kollinum og sjá hvað setur.

Eric Ries – @ericries
http://theleanstartup.com/

Gunnar Hólmsteinn – @gunniho
http://www.clarahq.com/

Af hverju er löglegur drykkjualdur á Íslandi ekki 16 ára?

YOBsGrein sem ég fékk birta í Fréttablaðinu. Hugmyndin á bakvið greinina var að vekja fólk til umhugsunar. Það virðist vera sem að meirihluti þjóðarinnar vilji halda löggiltum drykkjualdri 20 ára en samt virðast foreldrar og yfirvöld ekki taka því neitt sérstaklega alvarlega hversu algeng unglingadrykkja er.

Samkvæmt íslenskum lögum er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Þrátt fyrir að þessi lög séu í gildi sýnir skýrslan „Fyrsta drykkjan 2010″ sem Rannsóknir og greining gerðu fram á það að 49,5% 16 ára ungmenna hafa orðið ölvuð um ævina og 90,1% 19 ára nemenda í menntaskólum hafa orðið ölvaðir um ævina. Þessar niðurstöður eru unnar úr könnun sem lögð var fyrir í öllum menntaskólum landsins.

Einnig ber að nefna að samkvæmt ársriti SÁÁ voru rúmlega 200 einstaklingar 19 ára og yngri innritaðir í meðferð á Vogi árið 2009. Þessar tölur, ásamt þeirri staðreynd að 90% prósent ungmenna séu byrjuð að drekka áður en þau mega það samkvæmt núverandi löggjöf, getur varla talist góður árangur. Þeir sem ekki vilja að drykkjualdur á Íslandi sé 16 ára hljóta að krefjast þess að stjórnvöld taki á málinu.

Margir halda því fram að þetta sé eitthvað sem ekki sé hægt að breyta og svona sé þetta, svona hafi þetta verið og að þetta muni alltaf vera svona. Fyrir þá er áhugavert að líta aftur til ársins 1998 en þá höfðu 42% ungmenna í 10. bekk orðið drukkin síðastliðna 30 daga frá því að könnun Rannsóknar og greiningar var tekin en árið 2009 voru það einungis 19%. Á 11 árum hafði fjölda ungmenna, sem höfðu orðið drukkin síðasta mánuðinn, fækkað um meira en helming. Þessar tölur sýna okkur að það er hægt að breyta menningunni og að öflugt forvarnarstarf virkar því á þessum tíma hefur orðið mikil vitundarvakning almennings auk þess sem fjármagn í félagsmiðstöðvar og annað forvarnarstarf hefur margfaldast.

En allir þessir peningar og það góða starf sem fram fer í félagsmiðstöðvunum er að miklu leyti unnið fyrir gýg þar sem dyrnar að félagsmiðstöðvunum lokast við útskrift úr grunnskóla og ekkert skipulagt félagsstarf á vegum hins opinbera tekur við. Þessi ungmenni sem alin eru upp við virka þátttöku í öflugu félagslífi fara strax að leita sér að öðru félagslífi til að taka þátt í. Þá tekur aðeins við félagslíf skólanna sem er stjórnað á forsendum ungmennanna sem þar eru fyrir með engri yfirumsjón eða leiðbeiningu fagaðila. Félagslíf skólanna einkennist oftar en ekki af mikilli drykkjumenningu og lýkur flestöllum stórum viðburðum á vegum menntaskólanna á fylleríi. Hér er ekki einu sinni talað um þá sem ekki fara í menntaskóla eða af einhverjum ástæðum hætta í skóla en þeir eru í miklum áhættuhóp að verða óvirkir og einangrast félagslega enda hafa þeir engan samastað innan samfélagsins.

En hvað er til ráða? Eins og reynslan sýnir okkur þá dugir það skammt að halda einungis forvarnarfræðslu um skaðsemi áfengis fyrir ungt fólk þegar ungmennamenningin er einfaldlega drykkjumiðuð. Það þarf því að bjóða ungmennum 16 ára og eldri upp á jákvætt tómstundastarf undir handleiðslu fagfólks þar sem ungmennin fá að blómstra á eigin forsendum. Þekkingin er til staðar og býr í félagsmiðstöðvum landsins þar sem ungmenni á aldrinum 13-15 ára hafa vettvang og tækifæri til að vinna að uppbyggjandi, skemmtilegum og krefjandi verkefnum.

Nokkur sveitarfélög hér á landi eru nú þegar byrjuð að vinna framúrskarandi frumkvöðlastarf í þessum málum og eru með starfrækt ungmennahús fyrir 16 ára og eldri. Þar hafa ungmennin vettvang til að hittast, sinna áhugamálum sínum og hafa einnig aðgang að fullorðnum fagmanni sem þau geta leitað til. Með þessu eru sveitarfélögin að bjóða ungmennunum sínum val. Val um það hvort einstaklingurinn vilji taka þátt í heilbrigðu tómstundastarfi sem hefur jákvæð áhrif á þroska hans eða hvort hann ætli að byggja félagslíf sitt upp í kringum áfengi sem hefur skaðleg áhrif á þroska og getu einstaklingsins.

Raunsæishyggja í umhverfisvernd – Green Metropolis

Júní mánuður byrjaði óvenju vel þetta árið því ég var staddur í Berlín á námskeiði í því hvernig hægt er að beita frumkvöðlafræðum í félagsmiðstöðvum. Námskeiðið hét How to get in the game og var ansi fræðandi og skemmtilegt. En það sem stendur þó ekki minna uppúr úr ferðinni er tíminn sem ég eyddi með Kristjáni Guðjónssyni heimspekingi sem var búsettur í Berlín á þessum tíma.

Við leigðum okkur hjól og hjóluðum um hin fjölmörgu hverfi Berlínarborgar sem öll iðuðu af mannlífi og er borgin ótrúlegur suðupottur hina ýmsu menningarheima þar sem „hipsterinn” er kóngurinn en deilir þó ríkidæminu með Tyrkjunum í sátt og samlyndi.

Við Krissi stoppuðum meðal annars í lítilli alþjóðlegri bókabúð sem seldi ekki margar bækur en þær voru allar mjög vel valdar og áhugaverðar. Bókabúðin var mjög sjarmerandi ekki mikið stærri en 15 fermetrar og var í rauninni bara tvær bókahillur eitt borð á milli þeirra og svo skrifborð starfsmannnana tveggja sem var innst í búðinni. Ég ýmindaði mér að stelpurnar tvær sem unnu í búðinni væru báðar rithöfundar sem sætu þarna allan daginn að skrifa en búðin væri bara leið til að borga fyrir húsnæðið og skapa smá aukatekjur. Einnig sagði Krissi mér að búðin standi reglulega fyrir upplesturum og fleiri viðburðum á sviðið bókmennta. Þetta þótti mér afskaplega heillandi allt saman.

Ég gekk út úr búðinni með eina bók undir hendinni en það var bókin Green Metropolis eftir David Owen. Undirtitill bókarinnar er “Why Living Smaller, Living Closer, and Driving Less Are the Keys to Sustainability.” Þessi setning auk fallegrar kápu varð til þess að ég keypti bókina þrátt fyrir að ég hafi í raun aldrei tileinkað mér neitt sérstaklega græna hugsun.

Bókin fjallar um það hvernig þéttbyggðar borgir eru með umhverfisvænustu byggðu svæðum á jörðinni. David Owen talar um þá alda gömlu mýtu að borgir séu uppsprettur alls ills og að hún byggi á úreltri hugsun þegar hreinlæti var ábótavant og allur iðnaður fór fram í borgum.

Þegar við hugsum hinsvegar dæmið til enda þá býr fólk minna í borgum en á dreifbýlum stöðum, í borgum eru almenningssamgöngur raunsær kostur og fólk mun líklegra til að  labba eða hjóla. Owen talar um það þegar hann flutti frá Manhattan í sveitasetur þar sem hann ól upp börnin sín þá hafi hann einnig flutti inn í einkabílinn. Hvert einasta erindi varð að bíltúr, ef það vantaði pott af mjólk þurfti að keyra í smábæin í grennd við húsið hans og keyra til baka. Fljótlega þurfti að kaupa bíl númer tvö því ef annar bíllinn var í leiðangri þá voru hinir heimilismeðlimirnir kyrrsettir á setrinu. Svo þegar börnin fengu ökuréttindi var þriðji bíllinn keyptur.

Owen setur upp allskonar skemmtileg dæmi eins og t.d. það að á sömu vegalengd og það tekur hann að labba í póstkassan sinn á sveitasetrinu hefði hann getað labbað í 2 verslanir, fatahreinsun, líkamsrækt og margt fleira frá Manhattan íbúðinni hans. Með þessu dæmi og mörgum fleirum setur Owen upp skýra mynd af því að það sem er best fyrir umhverfið er að íbúar jarðar mundu búa á sem minnstu landssvæði, sem næst vinnunni sinni, skóla og allri þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Þannig mundi fólk spara einkabílinn, hægt væri að fækka skólum,spítölum og allri grunnþjónustu sem oft er dreift um stór landssvæði með fáa íbúa. Þannig væri hægt að lágmarka vegaframkvæmdir, þannig væri einnig hægt að leggja færri lagnir, halda úti betri almennings samgöngum og svona mætti lengi telja.

Þetta þykir mér skemmtilega raunsæ sýn á umhverfisvernd og að maður þarf ekki að vera „tree loving hippee” sem vill endalaust vera í tenglsum við náttúruna og helst búa upp í sveit og rækta allt sjálfur til að bjarga umhverfinu. Þessir einstaklingar eru í raun og veru orsök gífurlegrar mengunar.

Samantekt:

Ég mæli með þessari bók fyrir alla. Hún setur upp skemmtilega mynd af því hvernig við þurfum að endurhugsa skipulagsmál til að bjarga umhverfinu. Einnig fjallar hann vel um það hvernig einu skiptin sem maður notar bílinn minna er þegar það er einfaldlega ekki lengur þægilegt, annaðhvort vegna þess að hann er óþarfur eða vegna þess að maður á ekki efni á að reka bíl. Mikilvægt er þó að líta ekki á þessi dæmi sem einhverskonar afsökun fyrir því að þurfa ekki að endurvinna eða spara orkuna sem við notum nú þegar heldur að líta á þetta sem hvatningu til að berjast fyrir þéttingu byggðar og stöðva endalausa uppbyggingu úthverfa utan á úthverfi.