All posts by ari
Eflum húsnæðissamvinnufélögin!
Byggjum upp öflugt búseturéttakerfi sem tryggir fólki á öllum aldri, út um allt land aðgang að öruggri langtímaleigu.
Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er í ruglinu, allt of lítið framboð er á litlum íbúðum þar sem ungt fólk, eldri borgarar og ferðaþjónustan berjast um hvern einasta bita. Fasteigna- og leiguverð er gríðarlega hátt en það samspil skapar aðstæður þar sem fólk sem ekki á fasteignir festist á okurleigumarkaði og nær ekki að leggja peninga til hliðar til þess að kaupa sér sína eigin eign. Leigumarkaðurinn er auk þess mjög óstöðugur þar sem fólk lifir í stanslausum ótta við að leigunni verði sagt upp eða hún hækkuð um tugi prósenta á hverju ári.
Búseturéttarkerfi er eins konar milliskref milli þess að kaupa og leigja. Keyptur er búseturéttur í íbúð og borguð er mánaðarleg leiga sem er í flest öllum tilvikum talsvert undir markaðsverði. Búseturétthafinn hefur svo aðgang að íbúðinni þangað til að hann ákveður að selja búseturétt sinn sem þá hefur vaxið í verði í takt við markaðsverð á húsnæði.
Ríkið og sveitarfélögin eiga að taka höndum saman við að gefa lóðir og skattaafslátta til húsnæðissamvinnufélaga sem byggja upp búseturéttaríbúðir. Aukið framboð af litlum og meðalstórum íbúðum heldur aftur af fasteigna- og leiguverði á almennum markaði ásamt því að skapa aukin tækifæri fyrir fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið. Öruggt og ódýrt húsnæði er ein stærsta kjarabót sem stjórnvöld geta boðið íslenskum almenningi. Öruggt og ódýrt húsnæði stuðlar að því að halda ungu fólki hér á landi. Öruggt og ódýrt húsnæði fjölgar krónum í vasa íslensks almennings og eykur þannig lífsgæði okkar allra.
Nýtt góðæri fyrir almenning

Nú við upphaf nýs góðæris stöndum við á tímamótum. Tækifærin blasa við alls staðar. Með öflugum útflutningi á fiski, menningu og áli ásamt stöðugum innflutningi af ferðamönnum skapast myndarlegar tekjur fyrir ríkissjóð og fyrirtækin í landinu. Samkvæmt Hagstofunni er atvinnuleysi komið niður fyrir 4% og mikil uppbygging á sér stað út um allt land. Við stöndum því á tímamótum þar sem í næstu kosningum ákveðum við hvort við viljum að þetta góðæri verði góðæri almennings í landinu eða góðæri ríkasta 10% landsmanna.
Kappræður formannsbjóðanda í Reykjavík
Harmageddon – Þeir sem hafa ekki efni á mat eiga ekki að borga skatt
Straumlínulöguð Samfylking

Aukum völd almenna félagsmanna – Sjónvarpsviðtal á Hringbraut
Við erum öll jafnaðarmenn
Guðmundur Ari heiti ég og ég er jafnaðarmaður. Meirihluti Íslendinga er jafnaðarmenn, jafnaðarmenn sem vilja að allir hafi möguleika til að blómstra, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Jafnaðarmenn sem vilja að stjórnvöld séu öflugt stuðningsnet þegar einstaklingurinn þarf á stuðningi að halda og að kerfið vinni markvisst að því að valdefla einstaklinginn svo hann geti hámarkað sjálfstæði sitt og sjálfræði.
Við erum flest öll sammála um að ríkið eigi að bjóða upp á fyrsta flokks heilbrigðis- og menntakerfi fyrir alla landsmenn, óháð aldri og efnahag. Við erum flest öll sammála um að óásættanlegt sé að fátækt tíðkist í landi þar sem nóg er af auðlindum og fjármagni. Það er með öllu óásættanlegt að sex prósent af tekjuminnsta hópi landsins hafi þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna fjárskorts og að unga kynslóðin sem er að alast upp í dag hafi það verr en foreldrar hennar höfðu.
Flestir Íslendingar eru meðvitaðir um það að stærstu vandamál samfélagsins tengjast því að allt of margar krónur fara í allt of fáa vasa sem svo virðast leka til Tortóla. Við erum flest orðin þreytt á forríkum stjórnmálamönnum sem segja okkur að það séu ekki til peningar til að byggja nýjan spítala, hækka persónuafsláttinn, lengja fæðingarorlofið, mæta húsnæðisvanda ungs fólks með raunverulegum aðgerðum og öllum hinum brýnu úrlausnarmálunum sem ráðast þarf í. Það gekk svo endanlega fram af okkur flestum þegar við fengum að vita að þessir sömu stjórnmálamenn eiga sinn þátt í því að það vantar peninga í hagkerfið. Meirihluti Íslendinga er jafnaðarmenn, jafnaðarmenn sem leita logandi ljósi að stjórnmálaafli sem talar þeirra máli, stjórnmálaafli sem berst fyrir jöfnum tækifærum og bættum lífsgæðum. Það er kominn tími til að Samfylking jafnaðarmanna stígi inn af hliðarlínunni og svari þessu kalli, hætti að leiða gagnrýni á aðra flokka og byrji þess í stað að leiða umræðuna með lausnum á þeim vandamálum sem íslenskur almenningur stendur frammi fyrir. Ég býð mig fram til að leiða slíka Samfylkingu jafnaðarmanna, Samfylkingu sem með jafnaðarstefnuna að vopni byggir upp það samfélag sem meirihluti Íslendinga vill búa í. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Viðtal hjá Harmageddon
Sækjum fram með jafnaðarstefnuna og jákvæðni að vopni
Bréf sem sent var á allt skráð Samfylkingarfólk og stuðningsmenn.
____
Kæra Samfylkingarfólk og stuðningsmenn
Fyrir þau ykkar sem þekkið mig ekki þá heiti ég Guðmundur Ari Sigurjónsson og er 27 ára tómstunda- og félagsmálafræðingur. Ég er formaður Samfylkingarfélagsins á Seltjarnarnesi og er búinn að starfa sem bæjarfulltrúi síðastliðin tvö ár. Ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína til að leiða Samfylkingu jafnaðarmanna á Íslandi í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum almennings og standa vörð um samfélag þar sem allir hafa jafna möguleika óháð efnahag og félagslegri stöðu.
Það eru þrjú meginatriði sem létu mig taka þá ákvörðun að fara í framboð.
- Skilningur almennings á jafnaðarstefnunni er að verða óljós, stór hluti fólks veit ekki hvað jafnaðarstefnan snýst um og tengir Samfylkinguna við andstöðuflokk en ekki hugsjónarflokk. Það erum við í Jafnaðarmannaflokki Íslands sem mótum upplifun fólks af stefnu jafnaðarmanna. Það er okkar hlutverk að setja meginþunga flokksins í að leggja fram tillögur í anda jafnaðarstefnunnar, tillögur að bættum lífsskilyrðum almennings og stuðla þannig að auknum jöfnuði í samfélaginu.
- Þetta þarf að vera gaman. Formaður flokksins þarf að vera leiðandi í að virkja hinn almenna félagsmann til þátttöku og skapa vettvang þar sem félagsmenn geta komið hugmyndum sínum áfram. Krafturinn í frjálsum félagasamtökum felst í sjálfboðaliðunum og að þeim þarf að hlúa vel að. Sjálfboðaliðar vinna ekki nema hafa ánægju eða gagn af starfinu. Þetta þýðir ekki að við þurfum að hafa ís á öllum fundum en hinn almenni félagsmaður þarf að finna að hann geti haft áhrif á framtíðarstefnu samfélagsins.
- Endurnýjun – Ef við ætlum að sýna landsmönnum að við erum fjöldahreyfing sem á skilið meira en 10% fylgi þá verðum við að sýna út á við að við séum stærri en þingflokkurinn.Við stöndum á tímamótum og ég tel að leiðin upp sé að fá inn nýtt fólk, nýja rödd og ný andlit til að tala fyrir stefnu jafnaðarmanna.
Ég hlakka til að eyða næstu dögum og vikum í að kynnast ykkur betur og eiga samtal um hvernig við sjáum Samfylkingu jafnaðarmanna þróast á næstu árum.
Með bestu kveðju
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Hægt er að fá nánari upplýsingar um mig og framboðið á:
www.allirflottir.is