Raunsæishyggja í umhverfisvernd – Green Metropolis

Júní mánuður byrjaði óvenju vel þetta árið því ég var staddur í Berlín á námskeiði í því hvernig hægt er að beita frumkvöðlafræðum í félagsmiðstöðvum. Námskeiðið hét How to get in the game og var ansi fræðandi og skemmtilegt. En það sem stendur þó ekki minna uppúr úr ferðinni er tíminn sem ég eyddi með Kristjáni Guðjónssyni heimspekingi sem var búsettur í Berlín á þessum tíma.

Við leigðum okkur hjól og hjóluðum um hin fjölmörgu hverfi Berlínarborgar sem öll iðuðu af mannlífi og er borgin ótrúlegur suðupottur hina ýmsu menningarheima þar sem „hipsterinn” er kóngurinn en deilir þó ríkidæminu með Tyrkjunum í sátt og samlyndi.

Við Krissi stoppuðum meðal annars í lítilli alþjóðlegri bókabúð sem seldi ekki margar bækur en þær voru allar mjög vel valdar og áhugaverðar. Bókabúðin var mjög sjarmerandi ekki mikið stærri en 15 fermetrar og var í rauninni bara tvær bókahillur eitt borð á milli þeirra og svo skrifborð starfsmannnana tveggja sem var innst í búðinni. Ég ýmindaði mér að stelpurnar tvær sem unnu í búðinni væru báðar rithöfundar sem sætu þarna allan daginn að skrifa en búðin væri bara leið til að borga fyrir húsnæðið og skapa smá aukatekjur. Einnig sagði Krissi mér að búðin standi reglulega fyrir upplesturum og fleiri viðburðum á sviðið bókmennta. Þetta þótti mér afskaplega heillandi allt saman.

Ég gekk út úr búðinni með eina bók undir hendinni en það var bókin Green Metropolis eftir David Owen. Undirtitill bókarinnar er “Why Living Smaller, Living Closer, and Driving Less Are the Keys to Sustainability.” Þessi setning auk fallegrar kápu varð til þess að ég keypti bókina þrátt fyrir að ég hafi í raun aldrei tileinkað mér neitt sérstaklega græna hugsun.

Bókin fjallar um það hvernig þéttbyggðar borgir eru með umhverfisvænustu byggðu svæðum á jörðinni. David Owen talar um þá alda gömlu mýtu að borgir séu uppsprettur alls ills og að hún byggi á úreltri hugsun þegar hreinlæti var ábótavant og allur iðnaður fór fram í borgum.

Þegar við hugsum hinsvegar dæmið til enda þá býr fólk minna í borgum en á dreifbýlum stöðum, í borgum eru almenningssamgöngur raunsær kostur og fólk mun líklegra til að  labba eða hjóla. Owen talar um það þegar hann flutti frá Manhattan í sveitasetur þar sem hann ól upp börnin sín þá hafi hann einnig flutti inn í einkabílinn. Hvert einasta erindi varð að bíltúr, ef það vantaði pott af mjólk þurfti að keyra í smábæin í grennd við húsið hans og keyra til baka. Fljótlega þurfti að kaupa bíl númer tvö því ef annar bíllinn var í leiðangri þá voru hinir heimilismeðlimirnir kyrrsettir á setrinu. Svo þegar börnin fengu ökuréttindi var þriðji bíllinn keyptur.

Owen setur upp allskonar skemmtileg dæmi eins og t.d. það að á sömu vegalengd og það tekur hann að labba í póstkassan sinn á sveitasetrinu hefði hann getað labbað í 2 verslanir, fatahreinsun, líkamsrækt og margt fleira frá Manhattan íbúðinni hans. Með þessu dæmi og mörgum fleirum setur Owen upp skýra mynd af því að það sem er best fyrir umhverfið er að íbúar jarðar mundu búa á sem minnstu landssvæði, sem næst vinnunni sinni, skóla og allri þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Þannig mundi fólk spara einkabílinn, hægt væri að fækka skólum,spítölum og allri grunnþjónustu sem oft er dreift um stór landssvæði með fáa íbúa. Þannig væri hægt að lágmarka vegaframkvæmdir, þannig væri einnig hægt að leggja færri lagnir, halda úti betri almennings samgöngum og svona mætti lengi telja.

Þetta þykir mér skemmtilega raunsæ sýn á umhverfisvernd og að maður þarf ekki að vera „tree loving hippee” sem vill endalaust vera í tenglsum við náttúruna og helst búa upp í sveit og rækta allt sjálfur til að bjarga umhverfinu. Þessir einstaklingar eru í raun og veru orsök gífurlegrar mengunar.

Samantekt:

Ég mæli með þessari bók fyrir alla. Hún setur upp skemmtilega mynd af því hvernig við þurfum að endurhugsa skipulagsmál til að bjarga umhverfinu. Einnig fjallar hann vel um það hvernig einu skiptin sem maður notar bílinn minna er þegar það er einfaldlega ekki lengur þægilegt, annaðhvort vegna þess að hann er óþarfur eða vegna þess að maður á ekki efni á að reka bíl. Mikilvægt er þó að líta ekki á þessi dæmi sem einhverskonar afsökun fyrir því að þurfa ekki að endurvinna eða spara orkuna sem við notum nú þegar heldur að líta á þetta sem hvatningu til að berjast fyrir þéttingu byggðar og stöðva endalausa uppbyggingu úthverfa utan á úthverfi.