Guðmundur Ari vill nýja nálgun á formannshlutverk Samfylkingarinnar

20140512-_MG_912627 ÁRA TÓMSTUNDA- OG FÉLAGSMÁLAFRÆÐINGUR BÝÐUR SIG FRAM TIL FORMANNS SAMFYLKINGARINNAR. HANN VILL HJÁLPA SAMFYLKINGUNNI AÐ FINNA GLEÐINA Á NÝ

Guðmundur Ari 27 ára bæjarfulltrúi af Seltjarnarnesi býður fram krafta sína til að sinna hlutverki formanns Samfylkingarinnar. Guðmundur Ari vill skerpa á fókus Samfylkingarinnar þar sem áherslan verður á að tala fyrir jafnaðarstefnunni í stað þess að setja allt púður í að gagnrýna aðra flokka. Guðmundur Ari telur að stærsti vandi Samfylkingarinnar snúi ekki að stefnu flokksins eða hvaða málefni eiga að ráðast í til að bæta hag almennings. Vandamál Samfylkingarinnar snúist um skort á tengingu forystunnar við hinn almenna flokksmann og þar af leiðandi kjósendur í landinu.

Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, sé ekki stærsti flokkurinn hér á landi þar sem mikill meirihluti landsmanna eru jafnaðarmenn og vilja búa í samfélagi þar sem allir hafa jafna möguleika til að ná árangri óháð efnahag og félagslegri stöðu

Samkvæmt Guðmundi Ara þarf formaður Samfylkingarinnar ekki aðeins að vera talsmaður stefnu flokksins heldur einnig að vinna eftir henni. Formaðurinn þarf að muna að það eru allir flottir og að sterku samfélagi er ekki stýrt af fámennum valdaklíkum heldur með öflugri grasrót og aðkomu sem flestra að ákvarðanatöku. Samfylkingin þarf ekki formann sem telur sig vita allt best og að hann sé með allar lausnir á vandamálum samfélagsins sjálfur. Hlutverk formanns er að virkja sem flesta félagsmenn til þátttöku og finna svo bestu leiðirnar til að koma málefnum þeirra í framkvæmd hvort sem það er inni á Alþingi eða í sveitarstjórnarmálum.

Það vill oft gleymast að Samfylkingin er stærri en þingflokkur Samfylkingarinnar og að í sveitarstjórnum landsins berjast fulltrúar flokksins á hverjum degi fyrir baráttumálum jafnaðarmanna. Sem formaður mundi ég vinna hörðum höndum á að bæta samstarf sveitarstjórnamanna og þingflokksins.

Þetta þarf að vera gaman

Guðmundur Ari telur það vera frumskyldu formanns og forystu Samfylkingarinnar að virkja kraft félagsmanna og að tryggja að þeir eigi sem stærstan þátt í stefnunni og þeim málum sem barist er fyrir. Það er hinn almenni félagsmaður í stjórnmálaflokkum líkt og öðrum frjálsum félagasamtökum sem vinnur sjálfboðavinnu af hugsjón til að gera samfélagið betra. Í þessu býr kraftur fjöldahreyfinga. Það er hlutverk forystu Samfylkingarinnar að fá sem flesta að borðinu og tryggja það að hugmyndir félagsmanna séu þær sem ná alla leið inn í stjórnkerfið en ekki persónuleg mál þingmanna hverju sinni. Eitt stærsta vandamál stjórnmálanna í dag er að fólki finnst stjórnmál leiðinleg og að hinn almenni kjósandi hafi engin áhrif því það séu sérhagsmunir og valdaklíkur sem ráða öllu. Þetta er jarðvegur þar sem popúlismi þrífst og hugsjónir þynnast út því kjósandinn er ekki virkur þátttakandi í stjórnmálum heldur fær bara kosningabæklinginn sendan á fjögurra ára fresti.

Til að snúa þessari þróun við þá þarf flokksstarfið að vera gefandi og skemmtilegt. Það þýðir ekki að það þurfi að vera candy floss vél á öllum fundum heldur að hinn almenni félagsmaður finni fyrir því að hlustað sé á hann og að hann hafi áhrif á framtíðaruppbyggingu samfélagsins sem hann býr í.

Reynsla og menntun af stjórnun félagasamtaka

Guðmundur Ari er giftur Nönnu Árnadóttur íþróttafræðingi og saman eiga þau strákana Árna Berg og Kjartan Kára. Guðmundur Ari er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað við æskulýðsmál síðastliðin 7 ár. Á þeim tíma hefur hann auk starfa sinna í félagsmiðstöð setið í stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu í þrjú ár og síðustu tvö sem formaður og hefur starfað sem aðstoðar- og stundakennari á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Guðmundur Ari skrifaði á síðasti ári bókina 9 Þrep æskulýðsstarfs sem er handbók fyrir æskulýðsstarfsfólk. Ásamt þessum verkefnum hefur Guðmundur Ari setið fyrir hönd Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Seltjarnarness síðastliðin tvö ár.