Category Archives: Myndbönd

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.