Starfskenning æskulýðsstarfsmanns

GAS

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð haustið 2008. Mamma benti mér á að Selið úti á Seltjarnarnesi, þar sem ég ólst upp væri að leita að starfsfólki. Ég var aldrei duglegur að sækja félagsmiðstöðina þegar ég var í grunnskóla og hafði í raun lítið tekið þátt í skipulögðu félagsstarfi. Ég mætti í viðtal hjá Möggu, forstöðumanns  í Selinu sem spurði mig út í mín áhugamál og leitaðist þannig við að máta mig inn í starfsmannahópinn. Ég fékk símtal skömmu síðar frá Möggu þar sem hún tilkynnti mér að hún væri búin að ráða í allar stöður en vildi hafa mig í afleysingum.  Þegar veturinn var alveg að fara af stað fór einn kvöldstarfsmaðurinn að vinna aðra vinnu og þá fékk ég kallið.

Þegar ég hóf störf í félagsmiðstöð hafði ég engin markmið, engar aðferðir og enginn verkfæri í höndunum. Eina sem maður hafði var að reyna vera skemmtilegur og að tengjast krökkunum. Ég lærði þó mjög fljótt að maður getur ekki rekið félagsmiðstöð á persónutöfrunum einum saman og þökk sé frábærs samstarfsfólks lærði ég fljótt að starfið laut vissum reglum. Eftir tvö ár í kvöldstarfi sótti ég um á tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands. Nú þegar útskrift nálgast er mikilvægt að skerpa á starfskenningu minni sem æskulýðsleiðbeinandi.

Í grunninn er gott að hugsa vinnu sína í félagsmiðstöð út frá þörfum einstaklinganna sem hana sækja. Samkvæmt þroskasálfræði kenningum Erik Eriksons (Berger, 2005) skiptist ævin upp í átakaskeið þar sem tveir pólar takast á og skapa þessi átök togstreitu í einstaklingum sem mikilvægt er að ná sátt við áður en haldið er á næsta æviskeið. Æviskeið unglingsáranna snýst um sjálfsmyndarleit einstaklingsins, „hver er ég?”, pólítískar skoðanir, kynferði og hvað vil ég gera við líf mitt? (Berger, 2005).  Félagsmiðstöð er í lykilstöðu til að aðstoða einstaklinginn á þessu átakaskeiði því í félagsmiðstöðinni er unglingurinn á eigin forsendum og getur valið sér verkefni eftir áhugasviði. Unglingurinn getur búið til stuttmynd einn daginn, verið í ræðuliði annan dagin og setið fundi með bæjaryfirvöldum þann þriðja. Æskulýðsstarfsfólk er mikilvægar fyrirmyndir unglinganna og hafa mikil áhrif á þá. Starfsmenn móta félagsmiðstöðvastarfið og skapa þá stemningu og menningu sem ríkir í félagsmiðstöðinni. Eins og kemur fram í starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR  (e.d. bls 2) þá er „eitt mikilvægasta verkefni starfsmanna að sjá til þess að öllum unglingum finnist þeir velkomnir í félagsmiðstöðina og að enginn verði þar fyrir aðkasti eða einelti”.

En það sem ekki má gleyma er að félagsmiðstöðin er einungis hús og unglingarnir skapa starfið með virki þátttöku sinni. Virk þátttaka er þvi lykilþáttur í félagsmiðstöðvastarfi og þá er ekki verið að tala um að unglingar mæti á viðburði eða klúbbastarf skipulagt  af starfsfólki. Með virkri þátttöku er átt við að þátttakendur eru upplýstir um verkefnið sem þeir taka þátt í, þeir fá að segja sína skoðun á verkefninu og hafa ákvörðunarrétt þegar ákvarðanir eru teknar sem snúa að verkefninu (Hart, 2002). Eitt furðulegasta en þó eitt besta heilræðið sem ég hef fengið í starf mínu sem æskulýðsstarfsmaður er að ég sé að standa mig best þegar ég þarf ekki að gera neitt. Þessu ber ekki að rugla saman við hangs og leti. Þetta snýr að því að starfið gengur best ef starfsfólkið útbýr svo góðan ramma og temur sér vinnubrögð sem snúa að því að unglingarnir geta komið með hugmyndir að verkefnum, þeir geta fundað og tekið ákvarðanir sem snúa að verkefnum og að þeir hafi öðlast þá hæfni til að framkvæma verkefnin sjálf. Hér er starfsmaður að sjálfsögðu með yfirsýn og til staðar en verkefnið er ekki hans heldur unglinganna.

Þegar ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð var ég alltof gjarn til að ganga í verkefni, skipuleggja viðburði og framkvæma þá sjálfur enda alinn upp við það að vera duglegur og vinna vel. Maður er allt of vanur því að framleiðni starfsmanns sé reiknuð í því hversu mörg handtök hann vinnur og hversu hratt og örugglega gengur að skipuleggja verkefni. Æskulýðsstarfsmaður má ekki hugsa á þennan veg, hann á að temja sér hugsunarhátt sem er meira í líkingu við hugsunarhátt kennara. Það mundi enginn segja að góður kennari væri sá sem mundi reikna öll stærðfræði dæmin fyrir börnin. Góður kennari líkt og góður æskulýðsstarfsmaður býr til ramma handa unglingunum og afhendir þeim verkfærin sem þau þurfa til að reikna dæmið til enda.

Í félagsmiðstöðvum á sér stað gífurlegt nám og mikilvægt að starfsfólk sé ávallt að leita að námstækifærum í stað þess að fjarlægja þau. Þetta nám er ekki formlegt nám eins og við þekkjum úr skólakerfinu heldur óformlegt og formlaust reynslunám. Óformlegt nám er oft í formi námskeiða þar sem ekki er veitt nein sérstök gráða fyrir námið (Jeffs, Smith, 2005). Sem dæmi má nefna kvikmyndaklúbb þar sem starfsmaður eða unglingur kennir á myndavélar og myndvinnsluforrit í formi fræðslu og með því að leyfa unglingunum að prófa sig áfram undir leiðsögn. Formlaust nám er svo aftur á móti allt sem við lærum af umhverfinu og samskiptum okkar við annað fólk (Jeffs, Smith, 2005). Við tileinkum okkur menningu sem við erum hluti af. Við öpum upp samskiptamunstur frá fyrirmyndum okkar, mótum jafnvel tónlistar og fatasmekk út frá þeim hóp sem við umgöngumst. Við lærum einnig slæm samskipti og áhættuhegðun með óformlegu og formlausu reynslunámi og því mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn sé ávallt vakandi um þau námstækifæri sem umhverfið býður upp á og geri sitt besta til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn geri ekki upp á milli fólks og afskrifi engan. Æskulýðsstarfsmaðurinn á að tileinka sér „allir flottir” kenninguna (e. postive youth development). En samkvæmt henni býr sérhvert barn yfir hæfileikum, styrkleikum og áhugasviðum sem skapa  möguleika á farsælli framtíð fyrir barnið (Damon, 2004). Allir flottir kenningin snýr að því að einblýna á styrkleika barnsins og byggja undir þá í stað þess að setja alla orkuna í vandamál eins og lesblindu, ofvirkni, reykingar eða andfélagslega hegðun (Damon, 2004). Það er því hlutverk starfsmannsins að hjálpa unglingum að finna styrkleika sína og búa til farveg svo að unglingarnir geti nýtt sér styrkleika sína til að yfirbuga „veikleikana”.

Það er því að ýmsu að huga í starfi æskulýðsstarfsmannsins og eflaust eitthvað af hlutum sem ekki eru nefndir í þessari upptalningu minni hér. Þetta eru þó þeir hlutir sem standa upp úr að mínu mati og mynda starfkenningu mína. Starfskenning mín hefur mótast af 5 ára starfsreynslu í félagsmiðstöð, þriggja ára háskólanámi en einnig af minni eigin reynslu af skólakerfinu og starfi félagsmiðstöðva. Þegar ég var í grunnskóla passaði ég alls ekki inn í fastmótaða kassa skólakerfisins, samræmd próf og kyrrsetu á meðan fullorðið fólk talaði um hluti sem ég tengdi mig engan vegin við og áttu alls ekki við mig. Þessi skoðun mín á skólakerfinu viðhélst upp í menntaskóla þar sem ég fann mér engan farveg. Þegar ég byrjaði að vinna í Selinu hafði ég engan áhuga á því að fara í háskóla og var ég farinn að hugleiða það alvarlega að hætta í menntaskóla. Í Selinu kynntist ég styrkleikum mínum sem kynduðu undir áhuga á því að leita að frekari þekkingu. Það varð til þess að ég skráði mig í tómstundafræði og í því námi hef ég ekki átt í neinum erfileikum með að sitja og hlusta, leysa verkefni og skapa nýja hluti. Á þessum stutta tíma hafa viðhorf mín til skóla og lífsins gjörbreyst. Þessi reynsla mín af mikilvægi þess að einstaklingar finni styrkleika sína í stað þess að rembast eins og rjúpan við staurinn við að gera það sama og hinir er minn helsti hvati fyrir fjölbreyttu og uppbyggilegu tómstundastarfi þar sem einstaklingar fá að blómstra á eigin forsendum.

 

Heimildaskrá

Berger, K. S. (2005). The developing person through the life span. (6. útgáfa). New York: Worth Publishers.

Damon, W. (2004). What is positive youth development? The ANNALS of the American Academy of Political and Social Science, 591, 13-24.

Hart. R. A. (2002). Children‘s participation: The theory and practice of involving young citizens in community development and enviromental care. London: Earthscan Publications Ltd.

ÍTR (e.d.). Starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR. Reykjavík: Höfundur.

Jeffs, T. og Smith, M. K. (2009). Informal education: conversation, democracy and learning. (3. útgáfa). Nottingham: Educational Heretics Press.