Straumlínulöguð Samfylking

Ari_FB_lydraediMeð núverandi lögum Samfylkingarinnar hafa almennir félagsmenn ekki atkvæðisrétt til að kjósa um stefnu flokksins eða forystumenn (fyrir utan formann). Í núverandi strúktúr þarf hinn almenni félagsmaður að vinna sig upp raðir Samfylkingarinnar til að vera kjörinn fulltrúi á Landsfundi eða fá sæti í flokksstjórn sem hefur æðsta vald á milli Landsfunda. Í þessu kerfi eru grasrótin og valdhafar aftengd og líkt og við höfum séð síðastliðin ár þá hefur myndast gjá á milli flokksforystunnar og grasrótarinnar, gjá á milli flokksins og þjóðarinnar.
Í nýsköpunarfræðum er mikið notast við straumlínustjórnun (e. lean management) sem er hugmyndafræði sem snýst um að fyrirtæki þurfi að vera sveigjanleg og í sífelldum tengslum við markaðinn til að geta aðlagað sig að breyttum stefnum og straumum og svarað þannig kalli markaðarins. Hugmyndafræðin snýst um að uppfæra vörur oftar og bregðast við hraðar í stað þess að bíða eftir að varan verði úrelt og þurfa þá að koma með algjörlega nýja vöru á markað.
Færum völdin til fólksins
Það er kominn tími á að Samfylkingin taki upp hugmyndafræði straumlínustjórnunar og breyti flokknum úr stofnun og yfir í vettvang þar sem jafnaðarmenn geta komið saman og barist fyrir sínum hjartans málum, komið málum á dagskrá og endurskoðað stefnuna reglulega. Opnum landsfundi og flokkstjórn fyrir öllum félagsmönnum og gefum öllum félögum atkvæðis- og tillögurétt. Kraftur flokksins kemur úr grasrótinni og til að stækka hana þarf að gefa almennum félagsmönnum aukna ábyrgð og völd innan flokksins.
Sem nýr formaður Samfylkingarinnar mun ég setja það í algjöran forgang að vinna með félagsmönnum að þvi að endurskipuleggja valdastrúktúr flokksins, færa völdin til fólksins og vinna markvisst að því að virkja sem flesta félagsmenn til þátttöku.