Sækjum fram með jafnaðarstefnuna og jákvæðni að vopni

20140512-_MG_9126Bréf sem sent var á allt skráð Samfylkingarfólk og stuðningsmenn.
____

Kæra Samfylkingarfólk og stuðningsmenn

Fyrir þau ykkar sem þekkið mig ekki þá heiti ég Guðmundur Ari Sigurjónsson og er 27 ára tómstunda- og félagsmálafræðingur. Ég er formaður Samfylkingarfélagsins á Seltjarnarnesi og er búinn að starfa sem bæjarfulltrúi síðastliðin tvö ár. Ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína til að leiða Samfylkingu jafnaðarmanna á Íslandi í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum almennings og standa vörð um samfélag þar sem allir hafa jafna möguleika óháð efnahag og félagslegri stöðu.

Það eru þrjú meginatriði sem létu mig taka þá ákvörðun að fara í framboð.

  1. Skilningur almennings á jafnaðarstefnunni er að verða óljós, stór hluti fólks veit ekki hvað jafnaðarstefnan snýst um og tengir Samfylkinguna við andstöðuflokk en ekki hugsjónarflokk. Það erum við í Jafnaðarmannaflokki Íslands sem mótum upplifun fólks af stefnu jafnaðarmanna. Það er okkar hlutverk að setja meginþunga flokksins í að leggja fram tillögur í anda jafnaðarstefnunnar, tillögur að bættum lífsskilyrðum almennings og stuðla þannig að auknum jöfnuði í samfélaginu.

  2. Þetta þarf að vera gaman. Formaður flokksins þarf að vera leiðandi í að virkja hinn almenna félagsmann til þátttöku og skapa vettvang þar sem félagsmenn geta komið hugmyndum sínum áfram. Krafturinn í frjálsum félagasamtökum felst í sjálfboðaliðunum og að þeim þarf að hlúa vel að. Sjálfboðaliðar vinna ekki nema hafa ánægju eða gagn af starfinu. Þetta þýðir ekki að við þurfum að hafa ís á öllum fundum en hinn almenni félagsmaður þarf að finna að hann geti haft áhrif á framtíðarstefnu samfélagsins.

  3. Endurnýjun – Ef við ætlum að sýna landsmönnum að við erum fjöldahreyfing sem á skilið meira en 10% fylgi þá verðum við að sýna út á við að við séum stærri en þingflokkurinn.Við stöndum á tímamótum og ég tel að leiðin upp sé að fá inn nýtt fólk, nýja rödd og ný andlit til að tala fyrir stefnu jafnaðarmanna.

 

Ég hlakka til að eyða næstu dögum og vikum í að kynnast ykkur betur og eiga samtal um hvernig við sjáum Samfylkingu jafnaðarmanna þróast á næstu árum.

Með bestu kveðju
Guðmundur Ari Sigurjónsson


Hægt er að fá nánari upplýsingar um mig og framboðið á:
www.allirflottir.is

www.facebook.com/gudmundurarisigurjonsson

www.twitter.com/gummari