Nýtt góðæri fyrir almenning

Ari_FB_rettlaetiÞað hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að mikill uppgangur er í landinu eftir mögur ár í kjölfar bankahrunsins. Sumir taka svo til orða að 2007 sé komið aftur og eiga þá við að allt sé að fara til fjandans. Það getur því verið ágætt að minna sig á það að uppgangur og góðæri eru ekki neikvæð tímabil í eðli sínu, þvert á móti eru þetta þau tímabil sem samfélög endurnýja sig og stækka. Það sem skiptir höfuðmáli í góðærum líkt og kreppu er hverjir eru við völd og hvernig fjármagni er forgangsraðað. Það má segja að það séu tveir lykilþættir sem hægt sé að nota til að mæla hvort afleiðingar góðæris séu jákvæðar eða neikvæðar og það er hvort almenningur njóti góðs af og hvernig ríkissjóður og grunnstoðir samfélagsins standa að loknu góðærinu.
Í síðasta góðæri unnu stjórnvöld þétt með auðkýfingum landsins við að skapa ofsagróða þeirra fáu í stað þess að forgangsraða í þágu þeirra sem höfðu minna á milli handanna. Lítið var fjárfest í grunnstoðum samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfinu. Þegar bankarnir hrundu stóðum við eftir með tóman ríkissjóð og innviði með áralangri uppsafnaðari viðhaldsþörf. Helstu áhrif síðasta góðæris á meirihluta landsmanna var að auðveldara var að fá lán og hægt var að vinna lengri vinnudaga. Þetta skapaði ástand þar sem við söfnuðum að okkur dóti sem við fengum með lánum sem samþykkt voru á þeim forsendum að góðærið myndi vara til framtíðar.
Kjósum góðæri fyrir alla
Nú við upphaf nýs góðæris stöndum við á tímamótum. Tækifærin blasa við alls staðar. Með öflugum útflutningi á fiski, menningu og áli ásamt stöðugum innflutningi af ferðamönnum skapast myndarlegar tekjur fyrir ríkissjóð og fyrirtækin í landinu. Samkvæmt Hagstofunni er atvinnuleysi komið niður fyrir 4% og mikil uppbygging á sér stað út um allt land. Við stöndum því á tímamótum þar sem í næstu kosningum ákveðum við hvort við viljum að þetta góðæri verði góðæri almennings í landinu eða góðæri ríkasta 10% landsmanna.
Meirihluti landsmanna eru jafnaðarmenn sem vilja að allir hafi jafna möguleika til að ná árangri óháð efnahag og félagslegri stöðu. Það er því gríðarlega mikilvægt að flokkur jafnaðarmanna styrki stöðu sína og leiði stjórn landsins í þessu góðæri. Við eigum að nýta svigrúm í tekjuskattskerfinu til þess að hækka persónuafsláttinn og færa milliskattsþrepin ofar svo skattar lækki á alla landsmenn og meira sé eftir í vasa einstaklingsins í hverjum mánuði. Með því að hækka persónuafsláttinn nýtur almenningur góðs af góðærinu en hlutfallslega verður mest aukning á tekjum aldraðra, öryrkja, ungs fólks og annarra lágtekjuhópa.
Boltinn er hjá kjósendum og þar með ábyrgðin á að þetta góðæri verði jákvætt eins og góðæri eiga vera. Ekki annað 2007, ekki góðæri þeirra fáu heldur góðæri sem byggir upp grunnstoðir samfélagsins og bætir stöðu almennings í landinu.