Eflum húsnæðissamvinnufélögin!

Ari_FB_husnaediByggjum upp öflugt búseturéttakerfi sem tryggir fólki á öllum aldri, út um allt land aðgang að öruggri langtímaleigu.

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er í ruglinu, allt of lítið framboð er á litlum íbúðum þar sem ungt fólk, eldri borgarar og ferðaþjónustan berjast um hvern einasta bita. Fasteigna- og leiguverð er gríðarlega hátt en það samspil skapar aðstæður þar sem fólk sem ekki á fasteignir festist á okurleigumarkaði og nær ekki að leggja peninga til hliðar til þess að kaupa sér sína eigin eign. Leigumarkaðurinn er auk þess mjög óstöðugur þar sem fólk lifir í stanslausum ótta við að leigunni verði sagt upp eða hún hækkuð um tugi prósenta á hverju ári.

Búseturéttarkerfi er eins konar milliskref milli þess að kaupa og leigja. Keyptur er búseturéttur í íbúð og borguð er mánaðarleg leiga sem er í flest öllum tilvikum talsvert undir markaðsverði. Búseturétthafinn hefur svo aðgang að íbúðinni þangað til að hann ákveður að selja búseturétt sinn sem þá hefur vaxið í verði í takt við markaðsverð á húsnæði.

Ríkið og sveitarfélögin eiga að taka höndum saman við að gefa lóðir og skattaafslátta til húsnæðissamvinnufélaga sem byggja upp búseturéttaríbúðir. Aukið framboð af litlum og meðalstórum íbúðum heldur aftur af fasteigna- og leiguverði á almennum markaði ásamt því að skapa aukin tækifæri fyrir fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið. Öruggt og ódýrt húsnæði er ein stærsta kjarabót sem stjórnvöld geta boðið íslenskum almenningi. Öruggt og ódýrt húsnæði stuðlar að því að halda ungu fólki hér á landi. Öruggt og ódýrt húsnæði fjölgar krónum í vasa íslensks almennings og eykur þannig lífsgæði okkar allra.